Það kom að því !!!

Enn einu sinni ætla ég að reyna að byrja að blogga aftur, tíminn líður svo hratt og það hefur verið nóg að gera hjá mér, búin að flytja 2 x á þessu ári og er núna að koma mér fyrir í íbúðinni sem ég keypti mér í vor og er að byrja að finna mig heima þar og það er svo gott.


Það sem kveikti í mér að skrifa í kvöld var að ég var á FB og ýtti á gamni mínu á hvað yrði í huga mínum 2018, og það er ótrúlegt hvað það sem kom út hitti mig vel.

"Whenever I find myself doubting how far I can go, I will remember how far I have come.
I will remember everything I've  faced, all the battles I've won and all the fears I've overcome"

Ég hef verið dugleg við það undanfarið að gera lítið úr því sem ég hef verið að gera, og sagt mér að það þýði ekkert fyrir mig að hugsa um að skipta um vinnu eða elta drauma mína af því að ég sé svo gömul og kunni ekki nóg sem er bara algjör vitleysa.  Auðvitað get ég ekki vitað hvað í mér býr ef ég læt ekki á það reyna, þannig að nú er bara kominn tími til að endurskoða þessar hugsanir mínar.

Ef vel er skoðað, hversu langt ég hef náð þrátt fyrir allt sem ég hef farið í gegnum er það bara lyginni líkast, og auðvitað eru margir sem eiga erfiða fortíð eins og ég og það er ekki tilgangur minn að fara að gera upp mína fortíð hérna, en ég ætla að hafa þetta sem hitti mig svona vel á fb í huga þegar leiðinlega kellan í hausnum á mér byrjar að draga úr mér.

Það eru margir að stíga fram núna og tala um kynferðislega misnotkun og það er af hinu góða að skömmin sé tekin af þeim sem hafa orðið fyrir henni, því að þetta fylgir manni út í lífið og hefur mikil áhrif á allt sem maður tekur sér fyrir hendur.
Þetta hefur mikil áhrif á sambönd, sjálfsmyndina og skömmin á eigin líkama er mikil og ég man vel þann dag sem ég náði í fyrsta skiptið að horfa á líkama minn þegar ég kom úr baði og fór að gráta þegar mér tókst það og léttirinn sem því fylgdi var ótrúlegur.
Það tók mig nokkur ár að vinna með mína misnotkun hjá góðri konu og ennþá þegar mikið álag er á mér og ég passa ekki nógu vel upp á mig þá laumast þessar tilfinningar og hugsanir að mér eins og þjófur að nóttu.

"Þú ert feit og ljót"     "þetta var þér að kenna"    " þú ert ekki nógu góð"  
  " það getur enginn elskað þig"

En ég veit betur í dag og næ að stoppa þessar hugsanir og þær hafa ekki þau áhrif sem þær höfðu á mig áður, en þær liggja samt í leyni og brjóstast fram þrátt fyrir að ég sé búin að vinna mikið í sjálfum mér árum saman, en þær stjórna ekki lífi mínu lengur.  Nú enn og aftur ætla ég að skora þær á hólm og fara í gegnum þessar efahugsanir og láta á það reyna að ég get gert næstum allt sem mér dettur í hug og gert það vel, en sumt er ekki á mínu valdi og það er allt í lagi og ég sleppi bara takinu á því og leyfi því að sigla hjá.

Ég er mjög þakklát fyrir allt það góða fólk sem ég hef í kringum mig í dag sem elskar mig með öllum mínum kostum og göllum,  og þau verkfæri sem ég hef í dag til að vinna mig í gegnum svona tímabil og ég veit og finn að þetta er að verða betra.

Og til allra þeirra kvenna og karla sem eru að skila skömminni heim segi ég bara til hamingju og hvet þá sem ekki hafa ennþá getað gert neitt í sínum málum að gera það þegar þeir finna að þau séu tilbúin, við eigum bara það besta skilið.
  


Comments

Popular posts from this blog

Gúrka, gúrka, gúrka

Kindalund og dásamleg stund !!!!

Sveita og hjónabandssæla !!!!!