Kleinur er það heillin !!

Já það er ekki öll vitleysan eins hjá mér þessa dagana, í gærmorgun vaknaði ég fyrir klukkan fimm um morguninn og reyndi að sofna aftur en ég var bara alveg úthvíld, enda ekki búin að gera svo mikið á Hvítasunnudag annað en að Hvíla, hvíla og hvíla sig meira.

Svo að ég ákvað að nota morguninn í að gera kleinur var búin að vera að hugsa um það í einhvern tíma að drífa mig í það.

KLEINU UPPSKRIFT FRÁ ÞÓRUNNI
2 kg hveiti
500 gr sykur ( ég notaði 350 gr )
200 gr smjörlíki
4 egg
100 gr lyftiduft
3 tsk hjartarsalt
5 tsk kardimommudropar
1 ltr súrmjólk
2 dl mjólk
 Ég er ekki ennþá búin að prófa að nota olíu í kleinurnar, ætla einhvern tímann að gera litla uppskrift og prófa það, ég set öll hráefnin í stóra hnoðskál og klíp þau saman.
Þetta er kleinujárnið mitt mamma á mjög flott gamalt járn en þetta er eitthvað sem ég fann í búsáhaldabúð fyrir einhverjum árum síðan og hefur bara reynst mér vel.
Ég set alla súrmjólkina í blönduna smátt og smátt og hnoða þetta saman í skálinni, en ég geymi mjólkina til að sjá hversu blautt deigið verður og bæti henni svo út í ef með þarf, núna notaði ég kannski 1 dl sem ég hellti í súrmjólkurhyrnuna til að hreinsa vel úr henni og hellti því svo út í deigið.

Ég hnoðaði deigið betur saman á borðinu en það er töluvert þungt af því að þetta eru 2 kíló af hveiti.
Síðan hef ég deigið bara í skálinni og tek smá bita af því og hef hveiti á borðinu því að deigið er frekar blautt og ég hnoða litla bitann upp með hveiti

Mér finnst betra að hafa þetta á dúk því að þá festist deigið ekki við borðið.
Því næst snyrti ég deigið til og sker það í lengjur með kleinujárninu ég nota alltaf munstraða hjólið.
Því næst sker ég það til eins og er á myndinni og tek svo einn bita í einu og sný honum með því að stinga honum í gegn um gatið sem ég geri á hvert stikki fyrir sig, þetta er bara æfingar atriði og alltaf hægt að gera aftur ef það tekst ekki í fyrsta skiptið og þetta er bara persónulegur stíll hjá hverjum og einum.
Mér finnst gott að gera úr öllu deiginu fyrst og set það bara á diskamottur sem ég nota bara í þetta af því að þær eru svartar og ég er ekki mikið fyrir þann lit, bóndinn kom með þær í búið á sínum tíma :)
Þetta voru yfir 160 stykki hjá mér og ég var búin að þessu uppúr sjö og þá var ég búin að vera í tæpa tvo tíma að hnoða og snúa það tekur lengstan tíma að gera þetta og ég var ekkert að flýta mér að þessu.
við mamma skiptum einu sinni á pottum og ég fékk þennan sem er mjög góður kleinupottur af því að hann er svo víður að ofan og hitnar vel ( alpan pottur ) Ég notaði Palmín 3 stk og bræddi þau í pottinum við frekar háan hita.
Ég prófaði að setja eina kleinu út í til að athuga hvort feitin væri orðin nógu heit áður en ég setti nokkrar í einu.

síðan eru þær steiktar í smá stund og svo er þeim snúið við og steiktar hinum megin þar til þær eru fallega brúnar. Passa sig á feitinni því að hún er hættuleg ef hún fer á mann.

Ég hef alltaf plötu úr ofninum með eldhús pappír á til að setja kleinurnar á eftir að ég tek þær úr pottinum til að pappírinn taki mestu fituna af þeim, ég nota fiskispaða til að snúa þeim og taka þær uppúr.

Kleinur eru góðar með ískaldri mjólk og þær eru ekki það hollasta sem maður fær, en þær eru bara allt í lagi í hófi eins annað sætmeti.
Ég hvet alla til að prófa að baka kleinur og það getur verið mjög gaman að taka sig saman í fjölskyldunni og gera svolítið magn í einu þá verður úr þessu skemmtilegt kleinu skrall og fyrir börnin verða til skemmtilegar minningar í kringum þennan bakstur.

Comments

Unknown said…
Sæl
Takk fyrir uppskriftina og frábærar útskýringar. Ég bakaði hálfa uppskrift með dætrum mínum, 12 og 14 og þetta var leikur einn. Ein hnoðaði og flatti út, hin snéri við og ég steikti og gekk frá.

Popular posts from this blog

Gúrka, gúrka, gúrka

Kindalund og dásamleg stund !!!!

Sveita og hjónabandssæla !!!!!