Kvíðinn er lævís og.....

Ég ákvað að setjast niður og skrifa um kvíða því að hann hefur verið minn fylgifiskur af og til í gegnum tíðina og undanfarin 3-4 ár hefur hann varla vikið frá mér og þegar ég hef fengið frið fyrir honum þá hefur það verið eitthvað stutt í einu.


                                              mynd frá   CNS Community Network Servic                                            



Af hverju kemur kvíði og hver er ástæðan fyrir honum? Það eru alltaf einhverjar hugsanir sem koma fyrst sem framkalla kvíðann og ég er búin að læra mikið um kvíða og hef notað þær aðferðir en þetta er þreytandi til lengdar. Ég hef verið mjög  ung þegar ég fór fyrst að finna fyrir kvíða og það eru margar ástæður fyrir því m.a. að hafa alist upp við alkóhólisma, sumarið  sem ég varð 12 ára var mikið kvíða sumar hjá mér  þá hélt ég að allir sem mér þótti vænt mundu deyja og ég trúði þessu statt og stöðugt og var því með stöðugan kvíða yfir þessu  og lokaði mig mikið af af því að ég þurfti að fylgjast með öllum heima.

En það er svo skrítið að þetta varð svo bara einhvern veginn svo normal ástand hjá mér að ég var ekkert mikið að spá í þetta, en þegar ég byrjaði að drekka áfengi þá loksins varð ég eðlileg og fannst ég geta höndlað allt, þegar svo af mér rann þá varð ég bara meira kvíðin og það varð til nýr vítahringur sem átti eftir að fylgja mér fram eftir aldri.

Þegar ég átti elstu dóttur mína fékk ég fæðingarþunglyndi og það var svo lítil þekking á því  (35ár síðan) að það vissi enginn hvað átti að gera við mig og  því fékk ég mjög misvísandi ráðleggingar t.d að fá mér matjurtargarð hún fæddist í febrúar svo ekki gekk það upp.  Manninum mínum var ráðlagt að fara með mig í ferðalag og taka ekki barnið með til að dreyfa huganum en auðvitað var ég með stanslausan kvíða yfir því að eitthvað kæmi fyrir barnið á meðan ég var í burtu, þá voru brjóstin bundin upp svo að ég gæti ekki haft hana á brjósti því að það var svo slæmt fyrir okkur báðar og s.v.frv.

Og auðvitað jók þetta allt bara á kvíðann minn og það bitnaði á blessuðu barninu og öllum í kringum okkur þetta stóð yfir í tæpt ár eða svo ömurlegur tími í minningunni og tengsla myndun við barnið varð öðruvísi af því að ég var svo hrædd um að ég gæti skaðað hana eitthvað. Í dag er þetta allt breytt og ef konur finna fyrir einhverju á meðgöngu eða eftir fæðingu er til teymi á LSH sem heldur utan um fjölskylduna og hjálpar konum að komast yfir þennan erfiða hjalla. Frábært starf hjá þeim:

Það komu nokkur ár þar sem ég fann ekki mikið fyrir kvíðanum bara svona af og til og ekkert sem truflaði mig í daglegu lífi en hann lá samt alltaf í leyni og það var ekkert langt í hann ef eitthvað bjátaði á, ég var líka með lítið sjálfstraust og fannst ég ekki vera merkilegur pappír og ef ég þurfti að standa upp einhvers staðar og flytja mál mitt þá helltist kvíði yfir mig og þess vegna var ég ekkert að hafa mig í frammi nema þegar ég var drukkin þá gat ég nú aldeilis þanið mig.

Kvíðinn truflaði mig líka í námi ég sat oft heila önn í skóla en hætti svo þegar kom að prófum því að ég treysti mér ekki í þau og þetta hefur auðvitað truflað mína skólagöngu öll árin af því að ég sagði aldrei frá þessu út af skömm.

Um 38 ára aldurinn ákvað ég loksins að gera eitthvað í mínum málum og byrjaði að hitta ráðgjafa úti í bæ og fór síðan í hópmeðferð með yndislegu fólki,  þetta hjálpaði mikið en samt var alltaf eitthvað sem upp á vantaði og upp úr fertugu ákvað ég að hætta að drekka og þá urðu staumhvörf í  lífi mínu og  allt breyttist en kvíðnn fylgdi mér samt aðeins inn í edrúmennskuna en síðan átti ég mörg ár þar sem ég fann ekkert fyrir honum og þvílíkt frelsi ...vááá......

Ég gat farið upp á hálendi í fyrsta skipti og fann ekki fyrir kvíða og naut þess alveg í botn, fór að stunda gönguferðir á fjöll og prófaði að vera skálavörður á Fimmvörðuhálsi algjört ævintýri, eitthvað sem ég hefði aldrei trúað að ég gæti ein og óstudd.

En fyrir 3-4 árum síðan í kjölfarið á veikindum fór hann að birtast aftur í allskonar aðstæðum og hann læddist að mér eins og þoka svo lúmskur og liðugur og hellstist svo yfir mig fyrirvaralaust jafnvel í aðstæðum þar sem ég taldi mig vera örugga, t.d í vinnunni fóru hlutir að verða mjög erfiðir þrátt fyrir að ég hafði gert þá árum saman og þá fór sjálfstraustið að beyglast og efinn um að ég gæti starfað við mitt fag varð ágengari og það jók á kvíðann því oft verður þetta vítahringur sem erfitt er að rjúfa einn og þá þarf maður að fá hjálp til þess.

Kvíðinn læddist út og inn í ólíklegustu aðstæðum og ég skildi ekki af hverju hann var kominn aftur, ég sem var alltaf að vanda mig  og var komin með svo gott sjálfsmat og ófeimin en samt leið mér ekki vel og ég skammaðist mín fyrir þessa líðan " fólk sem er að vinna með fólk á ekki að líða svona."
En sem betur fer komst ég yfir þessa skömm og fékk mikla hjálp í mínum veikindum,  ég þurfti að vera frá vinnu í einhvern tíma og var hjá Virk starfsendurhæfingu og byjaði svo aftur að vinna smátt og smátt og á endum var ég komin aftur í fulla vinnu aftur og það var mjög góð tilfinning.

En það var erfitt að byrja aftur að standa frammi fyrir fólki og stundum fór ég bara fram og ældi eða kúgaðist en ég ætlaði að sigrast á þessu og ekki gefa mér neinn afslátt því að ef þetta tækist ekki þá yrði ég að hætta að vinna þessa vinnu og það fannst mér ekki gott.

En þetta kom allt rólega til baka og mér fór að finnast þetta miklu auðveldara en kvíðinn yfirgaf mig aldrei alveg og var alltaf á sveimi, það var óþægilegt og suma daga reyndi  hann að ráða alveg ferðinni en ég er búin að læra aðferðir (HAM) sem hjálpa mikið og oftast náði ég að sigra hann.

En ég var orðin  svo uppgefin á þessum bardaga og ég hafði aldrei viljað nein lyf við þessu, er í sundleikfimi, fór á leiklistarnámskeið, og alltaf að gera eittahvað en samt kom þessi lúmski óvinur aftur og aftur, og núna rétt fyrir jólin þá gafst ég upp á þessu og ákvað að prófa þunglyndislyf og þau eru að virka mjög vel fyrir mig og ég finn núna þegar kvíðinn er á undanhaldi hvað ég hef verið orðin uppgefin á þessum bardaga.

En auðvitað þurfti ég að fá aukaverknair af lyfinu og þær voru ekki góðar þannig að ég varð að hætta á því núna er ég bara að reyna að safna mér saman og geng mikið, hlusta á slökun, fer í sundið og ætla að bæta inn fundum hjá mér og sjá hvert þetta leiðir mig og ef það er ekki nóg þarf ég að reyna aftur við lyf tíminn leiðir það í ljós.

 Ég á bara eitt taugakerfi og þarf að fara vel með það og sýna mér góðvild og umhyggju og hætta að skamma mig fyrir að vera mannleg þá kemur þetta allt og ég á örugglega eftir að eiga mörg góð kvíðalaus ár framundan ætla að leyfa mér að trúa því og halda í vonina.

Comments

Popular posts from this blog

Gúrka, gúrka, gúrka

Kindalund og dásamleg stund !!!!

Sveita og hjónabandssæla !!!!!