Sjóða, frysta og búa í haginn fyrir veturinn.
Ég hef örugglega sagt það hérna oft áður að ég hreinlega elska haustið og það eru margar ástæður fyrir því, litirnir eru svo fallegir, það er farið að rökkva og gaman að kveikja á kertum og svo fær söfnurnar áráttan í mér að njóta sín.
Það er svo gaman að fara út í garð og taka upp allskonar grænmeti og kryddjurtir og búa í haginn fyrir veturinn. Þá er mikill hamagangur í eldhúsinu hjá mér og ég brosi út af eyrum og það er allt út um allt en þetta hefst nú allt á endanum.
Ég er alltaf jafn hissa og glöð þegar ég tek upp grænmetið mitt að hausti, þessi pínu litlu fræ sem ég setti niður í vor eru orðin að ætu grænmeti og það er svo gott svona nýtt ..nammm.nammm.
Og uppskernan er alltaf meiri en ég geri ráð fyrir og þá er gott að gefa með sér og reyna að vera duglegur við að borða þetta á meðan það er ferskt.
Ég hafði eitthvað mistalið blómkálið hjá mér og fékk fleiri hausa heldur en ég átti von á ( næsta sumar verður meira skipulag hjá mér )
Ég er bæði búin að gera blómkálssúpu og nota það með mat en samt var mikið magn eftir og gulrætu uppskeran var líka mjög góð þrátt fyrir að það hafi ekki litið vel út með þær og rófur, hvítkál, brokkalí, rauðrófur og rauðkál og ég tala nú ekki um baunirnar.
Grænmetið var forsoðið og kælt strax í skál með ísmolum og sett á plötu með smjörpappír og látið renna vel af því. Síðan var það sett í box í skömmtum sem henta í súpur, þetta voru nokkir skammtar sem þægilegt er að grípa til.
Það sem gekk af þegar ég snyrti grænmetið var svo sett í pott með smá salti, pipar og lauk soðið og búið til grænmetissoð úr því, úr þessu fékk ég þrjá skammta af soði þá frysti ég líka til að eiga í súpugrunn.
Um að gera að reyna að nýta allt sem til fellur úr garðinum og þetta er svo skemmtilegt og mér líður alltaf svo vel þegar ég er búin að fylla á frystirinn fyrir veturinn.
Comments