Rabarbara tilraunir ...
Fyrsta uppskera sumarsins af rababara er komin og ég ákvað að skoða hvað ég gæti gert annað en að sjóða sultu úr honum, en auðvitað sauð ég líka sultu.
Sultan er alltaf góð og hægt að borða hana og baka úr henni en það er líka gaman að prófa eitthvað nýtt.
Ég var að klára rababara sem ég átti frá því í fyrrasumar í frysti og gerði úr houm eftirrétt og það heppnaðist bara vel en ég gleymdi að taka myndir af þessari tilraun minni.
Setti rababarabita í pott og sauð upp á honum til að mýkja hann, þetta fór svo í botninn á eldföstumóti og eplabitar með. ( magnið af rababara fer bara eftir stærð mótsins sem við notum)
Yfir það setti ég hvítt súkkulaði sem ég átti má vera suðusúkkulaði eða það sem til er hverju sinni, þar ofan á setti ég mulning eins og ég kalla það og í hann fór c.a :
100gr. smjör, 1 bolli haframjöl, 2 msk hveiti, kókosmjöl og hakkaðar hnetur,
muldi þetta vel saman og setti ofan á rababarann og eplin. Bakaði þetta í 20 mín eða þar til þetta var gullið á litinn mjög gott.
Um helgina fórum við austur í heimsókn og ákváðum að gera þetta að góðum bíltúr, því að við buðum mömmu með okkur, á heimleiðnni komum kíktum við á framboðið af grænmeti á Flúðum og í Reykholti keyptum við hindber og jarðaber beint frá bónda og þau voru yndislega góð.
En áfram með rababarann ég bjó til ís og í hann fór:
Sósan í ísinn
4 stönglar af rababara saxaði þá smátt
biti af engiferrót sem ég raspaði
3 matskeiðar sykur
safi og börkur af einni appelsínu.
Þetta sauð ég í mauk við vægan hita.
Ísinn:
4 eggjarauður
4 msk. sykur
1 tsk vanilludropar
6 dl. rjómi ( hægt að hafa minna eða meira)
Þeytti eggjarauður og sykur ljóst og létt og bætti dropunum út í ( átti ekki vanillustöng annars hefði ég notað hana), þeitti rjómann létt og bætti honum rólega út í með sleikju.
Tók fram gamla góða "toppiver" ísboxið mitt
setti sósuna í botninn ( sem verður svo toppurinn )
rjómablöndu ofan á
aftur sósu og síðan rjómablöndu þetta setti ég síðan í frysti, í fyrrasumar prófaði ég að gera svona ís fyrir veislu sem ég var með fyrir vinnufélagana og hann gerði mikla lukkuþar.
Nú var komið að því að gera fleiri tilraunir í eldhúsinu og ég ákvað að prófa að gera rababara chutny og ég gerði birgðarkönnun í skápunum til að sjá hvað ég gæti nú sett í það,
af því að þetta var bara tilraun gerði ég bara lítinn skammt í þetta sinn ( tvær litlar krukkur).
4 stönglar af rababara smátt skornir
2 msk. af púðursykri
3 hvítlauksrif
1 laukur
engifer í krukku fyrir susí
1 tsk olífuolía
3 msk hvítvínsedik (átti ekki meira)
3 msk venjulegt edik
gróft salt
Setti olíuna og laukinn á pönnuna og leyfði því að mýkjast í 4-5 mín. þá bætti ég engiferinu smátt skornu út í og saltaði aðeins og þetta fékk að taka sig í 1-2 mín.
Þá bætti ég rababarabitunum og edikinu út í og sauð þar til bitarnir voru orðnir mjúkir.
Bóndanum fannst nú lyktin ekki góð af þessari tilraun minni en mér fannst bragðið algjör snilld og prófaði strax að nota þetta með grillkjöti um kvöldið og það var mjög gott, súr-sætt. Og úr því að lyktin var svona sterk í eldhúsinu þá sauð ég upp lög og setti gúrkur í súr alltaf gott að eiga súrar.....gúrkur
Svo er bara að halda áfram að gera tilraunir með blessaðan rababarann ég setti inn færslu í fyrra þá prófaði ég að nota hann í pastasósu og það kom bara vel út..
Comments