Afgangar enn og aftur !!!
Margir fá osta í jólagjöf og við erum ein af þeim og oft nær maður ekki að borða þá alla um jólin, þá er hægt að nota þá um áramótin en við erum svo lítið heima við þá að við náum því ekki.
Í janúar byrjun sat ég því uppi með osta sem ekki var hægt að geyma mikið lengur og frk. nýtin þurfti að skoða hvað hægt væri að gera við þá , ég hef oft fryst osta og geymt þá þannig í einhvern tíma og notað svo í allskonar rétti og það hefur virkað vel.
En nú ákvað ég bara að hóa saman börnunum og þeirra mökum og gera eitthvað gott úr þessu öllu saman og eldaði góða súpu og notaði ostana með sem meðlæti og rétti.
Þessi ostur er franskur camenbert og hann setti ég í fílódeig og ofan á hann fór villiblómahunang með pístasíum en ég fékk það í jólagjöf og það er mjög gott með ostum t.d.
Pakkaði honum inn í deigið og skar svo út laufblöð og gerði síðan rós úr afgöngum og hann varð mjög fínn, bakaði hann í vel heitum ofni 180gr. þar til deigið var orðið fallega gullið á lit og osturinn var þá orðinn mjúkur og góður en lak ekki.
Notaði svo hungangið og hnetuafganga sem meðlæti á hlaðborðið.
Svona leit osturinn út áður en honum var pakkað inn.
Ég notaði líka flódeigið til að búa til lítil umslög og inn í þau setti ég gráðost og sultu og svo notaði ég Gullost og sultu og í suma hunang og þetta varð alveg ótrúlega gott.
Súpan sem ég gerði var mjög einföld en ég leyfði henni að malla við vægan hita allan daginn.
Súpa fyrir 8-10:
8 meðal gulrætur skornar smátt
2 sellerí stönglar smátt skornir
2 hvítir laukar
4 hvítlauksrif
1 dós tómatar
1 bréf beikon
krydd, rósmarín, salt með chilliflögum, pipar,
Hænsnakraftur
og 2 dl af einhverjum grjónum ég notaði reyndar risottó.
1 tsk olía.
1 tsk sítrónusafi.
Setti olíuna í pott og út í hana skellti ég kryddinu og síðan hvítlauk sem ég reif á niður á rifjárni, svo fór laukurinn niðurrifinn líka út í og þetta fékk að hitna vel í gegn.
Þá fóru smátt skorið selleríið og gulrætur út í.
Næst fóru tómatarnir út í, svo vatnið en ég setti 4 dósir af vatni og 3 tsk af krafti og svo sítrónusafi.
Þetta fékk að sjóða upp og síðan við vægan hita fram eftir degi og í blálokin fór risotto út í og sauð samkvæmt leiðbeiningum. Beikonið klippti ég í litla strimla og steikti það þar til að var stökkt og það fór svo út í súpuna.
Rstin af beikoni borin fram með súpunni sem og sýrður rjómi.
þessi súpa var mjög góð og aðeins öðruvísi og það var örugglega sítrónusafinn og risottoið sem gerðu það.
Ég náði að hreinsa vel úr ísskápnum í þessari máltíð og það er oft alveg ótrúlegir fjársjóðir þar eftir jólin og algjör synd að láta þá fara til spillis.
Comments