Að blogga eða blogga ekki .....

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir samfylgdina á síðasta ári.


                     Skál fyri nýju ári í sítrónu og agúrku vatni drukkið úr kristalglasi.



Ég hef verið ansi léleg við að blogga undanfarið og það eru margar ástæður fyrir því tímaskortur og önnur verkefni, svo fannst mér ég ekki hafa frá neinu að segja þrátt fyrir að ég væri nú alltaf að baka, elda og bralla eitthvað heima við.

 Þegar ég byrjaði að blogga 19. febrúar 2013 þá var ég í veikindafríi og fannst þetta góð leið til að hjálpa mér að halda dagbók og fylgjast með líðan minni,  það virkaði mjög vel fyrir mig og hvatti mig áfram og þá var tilgangnum náð ekki satt:

Þessi mynd var máluð í listaþerapíu á Heilsuhælinu og táknar lífsgönguna mína.


Veikindi mín voru bæði líkamleg og andleg og það má segja að ég hafi bara verið útbrunnin á líkama og sál og það er ekki góður staður til að vera á, þessu fylgdi mikil skömm af því að fólk eins og ég á ekki að lenda í svona veikindum....þvílíkt bull og hroki.

Einn af fylgikvillum útbrennslu er mikill kvíði, suma daga mörg köst á dag, sem gerði það að verkum að ég þorði varla út úr húsi ef ske kynni að ég fengi nú kast.  Minnið var mjög slæmt og oft mundi ég ekki á milli herbergja og alls ekki hvað fólk hét eða á hvaða leið ég væri, að öllu jöfnu hef ég mjög gott minni þannig að auðvitað var ég hrædd um að svona yrði þetta alltaf hjá mér.


Þetta var afleiðing  mikillar  streitu sem var búin að vera allt of lengi í mínu lífi en einhvern veginn tókst mér alltaf að ráða við hana,  en smátt og smátt fór að molna úr jarðveginum mínum svo lítið í einu að ég gerði mér alls ekki grein fyrir því.

Síðar kom í ljós að skjaldkyrtillinn minn var vanvirkur og það hefur mjög mikil áhrif á líkama og sál en það tók tíma að finna út úr því og finna réttu lyfjagjöfina. Þegar ég lít til baka held ég að það hafi verið upphafið af veikindunum, því að þessu fylgdi depurð, verkir, svefnleysi og ef maður sefur ekki vel þá hefur það slæm áhrif á heilsuna.

Þessi niðurtúr minn tók því a.m.k ár og það smá dró úr mér á leiðinni,  þrátt fyrir að ég væri alltaf að reyna að gera eitthvað til að sporna við þessu. En var stöðugt þreitt og vildi helst bara liggja í sófanum frá því að ég kom úr vinnu þar til ég fór að sofa á köldin og þá lá ég og bilti mér og svaf mjög skrikkjótt.

Svo kom að því að ég hrundi bara alveg  saman, það gerðist í vinnunni minni og þess vegna skammaðist ég mín ennþá meira, fólk sem vinnur við að hjálpa öðru fólki verður ekki veikt eins og það ( hugsaði ég þá).


Mynd úr garðinum mínum þegar hann var í fullum skrúða.


En eins og málshátturinn góði segir :" Svo bregðast krosstré, sem og  önnur tré " og það er gott að hafa í huga um sjálfan sig líka " aðgát skal höfð í nærveru sálar " það á líka við um okkur ekki bara annað fólk. Og oft erum við okkar verstu dómarar.

Það tók við löng og ströng uppbygging hjá mér og ég get aldrei þakkað nægilega vel öllu því góða fólki sem kom þar að. Og ég man hvað mer þótti vænt um orð eins meðferðaraðilans þegar ég var að segja henni hvað ég væri þakklát fyrir alla hjálpina sem væri að koma úr öllum áttum, hennar orð voru " Þú hefur örugglega verið búin að senda mikið gott út í alheiminn Lára mín og nú færðu það til baka"

Ég fékk að fara í gegnum Virk til sálfræðings, á námskeið, líkamsrækt og í dáleiðslu.
Fór á Heilsustofnum í Hveragerði í 4 vikur á eigin vegum ,  var boðið á núvitundar námskeið og svo má lengi telja.


Það var líka unnið í því að finna aftur gleðina á Heilsuhælinu og þarna vorum við að dansa gömlu dansana, mikið hlegið og skrafað.


Byrjaði að vinna hálfan daginn í mars 2013 og smá jók starfshlutfallið þar til ég var aftur komin í 100% vinnu í júlí, það var oft erfitt í byrjun í  vinnunni, en ég ákvað strax að gefa mér engan afslátt og þrátt fyrir að mér liði ekki alltaf jafn vel þá gerði ég það sem ég þurfti að gera og leið betur þegar það var búið og það smá styrkti mig.



Ég fékk mjög góðan stuðning frá vinnufélögum og POWERtalk konunum mínum og fólkinu mínu heima og þetta hefur örugglega ekki alltaf verið auðvelt fyrir þau að hafa mig í þessu ástandi oft grátandi og illa fyrir kölluð. Góður stuðningur skiptir öllu máli þegar maður lendir í svona niðurbroti.

 Nokkrum sinnum á meðan ég var heima veik hugsaði ég um að hætta í þessari vinnu, að því að ég væri ekki hæf til að sinna henni eftir þetta niðurbrot en í dag er ég svo þakklát að ég fékk ekki að gera það og þessi reynsla hefur bara gert mig hæfari ef eitthvað er.



Í dag tveimur  árum eftir að ég lenti í þessari lífsreynslu líður mér vel og er að passa upp á andlega og líkamlega heilsu mína, en það koma dagar sem eru erfiðir og kvíðinn bankar upp á hjá mér og ég finn hvað ég hef minna þol en áður,  núna reyni ég að sína mér mildi þegar mér líður ekki vel og þeim fækkar stöðugt erfiðu dögunum og ef ég held ótrauð áfram þá verð ég alveg laus einn daginn.


Það sást ekki mikið utan á mér að mér leið svona illa á þessum tíma og fólk sem hitti mig og þekkti ekki gat ekki séð hvernig mér leið og hvað ég var oft lítil í mér, þess vegna er gott að hafa í huga þegar við erum í samskiptum við fólk að við vitum ekki hvað þetta fólk er að fara í gegnum og þess vegna er gott að koma fram við fólk eins og við viljum aðrir komi fram við okkur.....

Bloggið hjálpaði mér mjög mikið og var mjög dýrmætt í þessari endurfæðingu minni og þess vegna þykir mér svo vænt um það og ætla ekki að gefa það upp á bátinn eins og ég var að hugsa um, heldur halda áfram að blása út hérna um brall og mall og það sem efst á baugi hjá mér þá stundina.

Comments

Popular posts from this blog

Gúrka, gúrka, gúrka

Sveita og hjónabandssæla !!!!!

Kindalund og dásamleg stund !!!!