Jóla streita !!!
Það er gott að gefa sér tíma til að skoða hvernig streitu stigið er hjá okkur núna í byrjun desember, ég heyri marga segja að þetta sé erfiður tími fyrir þá og því fylgir streita, síðan eru aðrir sem upplifa þennan tíma sem skemmtilegasta tíma ársins.
Í hvorum hópnum sem við erum er samt gott að vera meðvitaður um líðan sína og fylgjast með því hvort við erum nokkuð að fara fram úr okkur hvort sem það er í innkaupum eða stússi.
Fyrir þá sem upplifa erfiðar tilfinningar á þessum árstíma er erfitt að heyra stöðugt hvað allt sé skemmtilegt, það eru tónleikar og jólahlaðborð og allkonar skemmtanir og það eru margir sem ekki hafa neinn til að fara með eða eiga ekki fyrir því.
Margir sem eiga erfitt núna hafa oft á tíðum upplifað erfiða hluti á þessum árstíma t.d í barnæsku eða ástvinamissi og svo eru aðrir sem hafa lítil fjárráð og það gerir mann dapran og þá er streitan á næsta leiti.
Ég þekki persónulega báða þessa þætti fyrir mig voru jólin mjög erfiður tími lengi framan af ævi vegna alkóhólisma og lítilla fjármuna þegar ég var að alast upp, en mamma reyndi alltaf sitt besta og ég á líka góðar minningar ég var orðin 27 ára þegar ég loksins losnaði við þennan kvíða sem fylgi þessari árstíð og það var mikill léttir og kostaði mig mikla vinnu með sjálfa mig og að sátt við fortíðina.
Það hafa komið tímar í mínu lífi eftir að ég fór að halda heimili þar sem lítið var um peninga og það er svo skrítið að samt gátum við átt gleðileg jól og allir voru ánægðir.
Ég hef líka misst mig í hreingerningum og bakstri fram á nótt því að allt átti að vera svo fullkomið heima hjá mér, en svo var ég það heppin að uppgötva að jólin komu hvort sem ég hamaðist eins og vitleysingur eða ekki, þetta hefur sem betur fer breyst mikið hjá fólki almennt.
Það er líka fullt af fólki sem elskar þennan árstíma og ég er ein af þeim núna og það er svo gott að vera ekki stressuð eða kvíðin og getað notið aðventunnar í rólegheitum.
Núna vil vera búin að baka það sem ég ætla að baka í byrjun aðventu og kökurnar eru á boðstólum í desember ekki verið geyma þetta í læstum baukum eins og einu sinni og svo gleymdust þær oft eða enginn hafði lyst.
Auðvitað breyttist jólaundirbúningurinn hjá mér eftir að börnin urðu eldri og þannig er það bara en þær vilja samt alltaf koma heim á Þorláksmessu til að skreyta jólatréð og það er gaman að halda í þann sið.
Við mæðgur bökuðum saman piparkökur núna og í framhaldi af því ákváðum við að vera með smá keppni okkar milli í að gera kökuhús mikill metnaður fenginn dómari til að dæma hver á flottasta húsið.....
Síðasta sunnudag vorum við með aðventukaffi og það viðraði nú ekki vel til þess en ég var búin að baka og setja á tertur og ákvað því að hita súkkulaði og leggja á borð og sjá svo til hverjum vindurinn feykti inn hjá okkur og viti menn á endanum vorum við 16-17 alveg frábært, aðventukaffi hefur fylgt mér frá því að ég hóf búskap en hefur aðeins breyst seinni ár en mér finnst þetta skemmtilegur siður, fólk hittist og spjallar og nýtur samverunnar...
Þessa dagana sit ég heima á kvöldin og föndra í rólegheitum og hlusta á jólalög og þetta er bara gaman, við hjónleysin verðum á Jólamarkaðinum á Elliðavatni um næstu helgi að selja trévörur sem hann er að smíða og það er mjög gaman , umhverfið alveg yndislegt og þar hittir maður nýtt og skemmtilegt fólk.
Það kemur að því að ég verð að fara í búðir fyrr en seinna til að klára jólagjafa innkaupin en eins og er nýt ég þess að vera í núvitund, ekkert stress bara hress og muna að njóta en ekki þjóta elskurnar mínar.
Comments