Kónguló, kónguló vísaðu mér á berjamó ......
Við hjónaleysin fórum í nestisferð í Hvalfjörðin á sunnudegi fyrir 3 vikum og ákváðum á síðustu stundu að taka með okkur fötur og berjatínur svona til von og vara ef við mundum finna einhver ber þar, við ætluðum líka að kíkja eftir steinum og svo átti þetta bara að vera skemmtilegt sunnudagsferð.
Við ákváðum að fara í gegnum göngin og þá leið og sjá til hvort við reyndum að tína ber í Brynjudalnum á leiðinni til baka, við dóluðum okkur og fórum í fjöruna og löbbuðum þar þetta var svo fallegur og heitur dagur og gaman að vera úti.
Svo vorum við orðin svöng og ákváðum að fá okkur bita og fundum okkur stað til þess og viti menn var ekki bara allt krökkt af krækiberjum þar við áttum ekki von á því og þetta var ekki einkaland þannig að við fengum okkur bita og svo fórum við að tína og áður en við vissum af vorum við komin með 10 kg.
Við ákváðum að láta þar við sitja og halda áfram för okkar og þegar við komum að afleggjaranum að Brynjudalnum þá var fólk þar út um allt með rassana upp í loft svo við vorum fegin að vera bara búin að tína.
Við fórum líka eina nótt að veiða við Gíslholtsvatn og fengum líka svona gott veður og fallegt sólarlag og c.a 1 kg af bláberjum hversu heppinn getur maður verið.
Ég er ekki vön að tína ber með berjatínu og var að reyna að taka ekki berjalyng með en þar sem við tíndum var mikið af berjum í grasi og þá fór náttúrulega eitthvað drasl með.
Ég hef séð sigti til að tka með til að hrista draslið frá og ætlaði að kaupa svoleiðis þegar við komum heim en það var allt uppselt svo að ég ákvað að geyma berin til næsta dags.
Ég skundaði í verslunina Brynju á mánudeginum til að kaupa mér sigti og næst tek ég það með í berjamóinn því að það er töluvert verk að hreinsa berin svona eftir á, þetta sigti sem ég keypti er algjör snilld og ég hef líka notað það þegar ég hef verið að taka upp grænmeti úr garðinum hjá mér og þá get ég hrist mestu moldina af úti í garði.
Í garðinum hjá mér eru nokkrir rifsberjarunnar og yfirleitt hef ég fengið mikið af berjum af þeim og aðrið hafa líka getað tínt hjá mér, en núna var uppskeran frekar rýr og það skýrist af því að runnarnir voru ekki klipptir eins og venjulega en það var komið svo snemma brum á þá að það náðist ekki svo voru fulgarnir voru líka duglegir að borða berin. ( verði þeim að góðu þessum elskum )
Það eru líka sólberjarunnar hjá mér og ég fékk c.a 1 kg af þeim það var sama sagan með þá ekki klipptir og þá fer svo mikil orka í öll þessi lauf að berin fá minna.
Okkur var gefin hindberjarunni í vor og vonadi fæ ég ber af honum næsta sumar og þá verður enn meira úrval af berjum í garðinum en ég rækta líka jarðaber og fékk smá uppskeru af þeim og borðaði berin bara beint af blóminu en náði líka að frysta slatta til að gera ís úr.
Ég gerði krækiberjasultu úr c.a 2 kg. af berjum og uppskriftin í hana var einföld hjá mér:
2 kg. krækiber
1/2 l vatn
sykur
sultuhleypir
Sauð berin með vatninu og bætti sykirnum út í mældi hann ekki heldur smakkaði bara til og þetta sauð ég rólega í klukkutíma eða svo, síðan notaði ég töfrasprotann til að mauka og svo fór 1 bréf af hleypi út í og soðið í 10 mín í viðbót og þetta varð bara fín sulta.
Það var líka gerð saft til að drekka í vetur og svo er hægt að búa til hlaup úr henni þegar líður á veturinn en saftin sem ég gerði í ár er úr rababara, krækiberjum og rifsberjum og svo frysti ég smávegis af berjum til að eiga í bakstur o.s.frv.
Og til að geyma saftina þá smíðaði bóndinn þennan fína stand fyrir mig í geymsluskúrinn okkar þannig að nú liggur saftin þar í góðu yfirlæti og er mjög aðgengileg en ég merkti hálsinn á flöskunum þannig að gott er að sjá hvað er í hverri.
Það er svo gaman að þessu stússi ég alveg elska það !!!!!!!
Comments