Baunir eru bæði hollar og góðar.
Undanfarin ár hef ég verið að rækta baunir og það hefur gengið misvel hjá mér, en í ár er uppskeran búin að vera mjög góð og auðvitað er ég ánægð með það.
Ég hef verið með tvær tegundir bæði sykurbaunir sem eru bara flatar og ótrúlegar góðar og svo þessar sem eru með baunum inni í veit ekki hvað þær heita, það er svo spennandi þegar blómin fara að koma þá veit maður að von er á baunum en þær vaxa út úr blómunum.
Þegar ég var að byrja að prófa þetta las ég allskonar um þessa ræktun og meðal annars það að maður má ekki setja þær niður á sama stað tvö ár í röð vegna þess að jarðvegurinn þolir það ekki ( nitrium)
Þannig að ég hef verið að hlaupa með þetta hingað og þangað og greinilega leið þeim mjög vel í skjólinu við kryddjurta kassan minn í sumar þar er heitt og notarlegt fyrir þær en þá klikkaði ég á því að binda þær almennilega upp og þær fóru að halla mikið og það var ekki gott og að lokum féllu þær framfyrir sig.
En þetta er það skemmtilega við ræktun maður er alltaf að læra og næsta sumar þegar ég set þær niður passa ég mig á þessu, en ég hef alltaf sett þær beint út ekki forræktað þær og það hefur alveg gengið.
Ég gat ekki borðað þetta allt í einu svo að ég ákvað að frysta þær og blanseraði þær fyrst og þegar maður gerir það þá er geymslutíminn mun lengri og þær halda bæði lit og bragði vel, en ég byrjaði á því að setja þær í sjóðandi vatn og lét þær vera þar í 2 mín og setti þær síðan í vatn með klökum og svo á hreint stykki til að vatnið færi af þeim.
Þá setti ég þær á ofnskúffu með smjörpappír og breiddi smjörpappír yfir þær líka og inn í frysti í 20 mín og svo tók ég þær út og þá voru þær frosnar og þá setti ég þær í hæfilega skammta í frystipoka.
Gamla hússtjórnarbókin hjálpar oft og svo fann ég líka mjög flotta síðu http://acme.to/uppskriftir uppskrifarvefurinn þar sem þetta er útskýrt mjög vel.
Það er svo gaman að hafa sínar eigin baunir með jólamatnum og svo nota ég þær í ýmsa rétti og þær eru mjög hollar og góðar.
Áður en mín uppskera kom keypti ég þessar á grænmetismarkaðinum í minni heima sveit þær voru mjög stórar og góðar , þetta er enn ein tegundin sem hægt er að prófa að rækta ég gaf vinkonu minni nokkur fræ ( það eru bara baunir) og hún setti þau í körfu með mold í á svalirnar hjá sér og fékk baunir svo það er um að gera að prófa.
Comments