Seinni hluti samskipti og vingjarnleg orð
Þá ætla ég að halda áfram með samskipta reglurnar.
4. Kunna að setja öðrum mörk:
Stundum þurfum við að segja nei við fólk ef við höfum ekki tíma eða tækifæri til að gera eitthvað sem er verið að biðja okkur um. Þetta getur verið mjög erfitt ef við erum vön að hlaupa til og hjálpa jafnvel þótt við höfum hvorki tíma né tækifæri til þess. þetta getur orðið til þess að við verðum mjög pirruð út í okkur sjálf og aðra.
Ég er ekki að tala um að við segjum nei ef einhver t.d. slasast og við vorum búin að ákveða að fara í Bónus, ég er að tala um þegar við látum annað fólk alltaf hafa forgang og sinnum ekki okkar þörfum.
Ef ég er ekki vön að standa með sjálfri mér getur þetta verið mjög erfitt að byrja á því, en góðu fréttirnar eru að það eru margir sem ekki gátu þetta en með æfingu hefur þeim tekist að breyta þessu.
Það er gott að hafa í huga þegar við byrjum að æfa okkur að gefa skýr skilaboð í stað þess að segja nei í löngu máli t.d. ef þú hefur ekki tíma í það sem verið er að biðja þig um þá segir þú bara " því miður ég hef ekki tök á því núna, en gæti auðveldlega gert það á morgun." í stað þess að fara í það að útskýra í löngu máli af hverju þú ert upptekin(n) fólki kemur það bara ekkert við :)
Það er gott að nota ÉG-boð ef þér finnst einhver vera að tala niður til þín,
" mér þætti vænt um að þú talaðir ekki svona við mig." Í stað þess að segja þú ert alltaf að tala niður til mín.
Mér sárnaði við þig áðan - í stað þess að segja þú ert alltaf að særa mig því að það er alhæfing í því,
mér líkaði ekki - ég er ósátt /ur við þegar ég segi þetta svona er ég að tala út frá mínum tilfinningum en ekki þess sem ég er að tala við.
Munum bara að það tekur tíma að æfa nýja hluti og það er eins með það að setja mörk og eftir því sem við æfum okkur meira þess betri verðum við í þessu.
5. Vera virkur hlustandi:
Það skiptir mig miklu máli ef ég þarf að tala við einhvern að hann gefi sér tíma til að hlusta á mig á meðan ég segi frá og sýni áhuga á því sem ég er að segja.
Ekki að hann sé að geispa, horfa á sjónvarpið, eða telja út munstur í lopapeysu á meðan, eða ef ég hringi og ætla að tala við vin minn og ég heyri að hann er ekki með hugann við það sem ég er að segja það er ekki gott.
Mér finnst bara betra að sagt sé við mig " má ég hringja í þig á eftir þegar ég er ekki upptekinn " ég sjálf þarf að passa mig vel á þessu því að ég get verið svo hröð að ég er að hlusta á hlaupum og það er ekki gott og eins finnst mér miklu skemmtilegra að tala við fólk beint frekar en í síma og þess vegna get ég verið svolítið stutt í spuna í síma en ég er alltaf að æfa mig.
Það er svo dýrmætt að eiga einhvern að til að hlusta á okkur þegar við þurfum á því að halda, og ef við erum að hlusta á einhvern pössum okkur á því að grípa ekki fram í og gefa ráð.
Við erum oft svo miklir ráðgjafar í okkur og erum svo fljót að finna lausn á málum fyrir aðra ,þá fer athygli okkar í að hugsa um hvaða ráð við getum gefið viðkomandi og við gleymum að hlusta.
Kannski var ekkert verið að biðja um ráð heldur bara að hlustað vær það sem ég hafði að segja.
6. Halda okkur við efnið - ef gagnrýni er þörf
Ef þú þarft að gagnrýna eitthvað byrjaðu á því að róa þig niður því að þú mátt ekki vera of æstur þá skilar það ekki árangri.
Mundu að gagnrýna atburðinn sem var að gerast hér og nú, en ekki gagnrýna manneskjuna.
Ekki falla í þá grifju að sækja eitthvað gamalt atvik og draga það fram t.d
." þú ert alltaf að gera þetta eða hitt " það kemur málinu ekkert við núna við erum að tala um atburðinn sem var að gerast hér og nú.
Ef við erum að gagnrýna þá þurfum við líka að koma með tillögu til úrbóta, og gefa okkur tíma til að hlusta á það sem hinn aðilinn hefur fram að færa, þá aukast líkurnar á því að við komumst að sameiginlegri niðurstöðu um breytingar sem allir geta verið sáttir við.
Við þurfum að fá uppbyggilega gagnrýni, ( rýna til gagns ) til að geta gert betur, en ef enginn segir við okkur hvað við erum að gera rangt þá getum við ekki breytt því, við þurfum alltaf að vanda okkur við það hvernig við segjum hlutina meira að segja tóntegundin skiptir máli.
Það á alltaf við " Aðgát skal höfð í nærveru sálar "
Comments