Núðlur eru góðar til að grípa í.

Hér fyrr á árum þegar pyngjan var oft ansi létt notaði ég mikið  núðlur í matargerð því að þær voru ódýrar og seðjandi,  þá kostaði pakkinn af þeim 18 kr en hann kostar eitthvað meira í dag en er samt ódýr.

Í vikunni sem leið var ég eitthvað slöpp og lítil nenna í mér að elda og þegar ég er í þessum ham þá gleymi ég oft að taka eitthvað úr frysti til að elda og þannig var það þennan dag sem ég eldaði þessa súpu.
Ég mundi eftir því að ég átti kjúklinga núðlupakka í skápnum og ég ákvað að gera bara fljótlega súpu og ég átti líka eitthvað í grænmetis skúffunni eins og alltaf.

 Ég notaði í þessa súpu :

1 pakka af núðlunum
3 gulgrætur 
2 hvítlauksrif
4 kartöflur
1 skalotlauk
1/2 rauða papriku
2 grænmetisteninga
hvítkál
9 dl. vatn

Setti vatn og teninga í pott og lét suðuna koma upp og þá bætti ég kjúklinga kraftinum sem fylgdi með núðlunum út í.

Skar kartöflurnar í bita og setti þær út í vatnið, síðan fóru  gulgrætunar út í og hvítlaukurinn sem ég skar smátt, þetta lét ég malla í 15 mín við vægan hita.

Þá bætti ég hvítkálinu sem ég skar í þunna strimla og paprikunni sem ég skar smátt út í og lét sjóða í 3-4 mín.

Og síðast setti ég núðlurnar sem ég var búin að brjóta smátt út í og lét sjóða í nokkar mínútur.


Og úr þessu var mjög bragðgóð súpa sem lítið þurfti að hafa fyrir og með þessu hafði ég skonsur sem ég hafði bakað og sett restina  í frysti og þær voru eins og nýjar.

Við borðuðum þetta tvö og tókum bæði með okkur afganga í vinnuna daginn eftir,  þessi súpa er mjög góð ef við erum að taka til í grænmetis skúffunni í ísskápnum og viljum fá meiri fyllingu í grænmetissúpuna.

Þegar ég átti sem blönkust  hérna um árið þá kom ég mér upp nokkrum sparnaðar mataruppskriftum og þá notaði ég t.d  núðlurnar með hakki og ýmsu öðru var oft að hugsa um að gefa út matreiðslubók með þessum órdýru og auðveldu réttum en hún er ennþá bara í kollinum á mér, en hver veit kannski læt ég bara verða af því einn daginn.

Comments

Popular posts from this blog

Gúrka, gúrka, gúrka

Kindalund og dásamleg stund !!!!

Sveita og hjónabandssæla !!!!!