Bók um bók frá bók til bókar
Hvernig væri að lesa aftur uppáhalds sögubækurnar frá því að við vorum börn, gæti verið að við upplifðum þær á annan hátt en þá? Ég átti nokkrar uppáhalds bækur sem ég las oftar en einu sinni t.d. hana Pollyönnu hún hjálpaði mér mjög mikið þegar ég var barn og leið illa, eins var það vinkona mín hún Anna í Grænuhlíð. Hvernig mundi ég upplifa þessar bækur í dag ef ég læsi þær aftur?
Er kvenremba, jákvæð sálfræði eða eintóm karlremba í þessum bókum sem hafa kannski skaðað mig en ekki hjálpað ?
Það sem vakti mig til umhugsunar um þetta var greinarkorn hjá http://heimssyn.blog.is sem ég af óskiljanlegum ástæðum rakst á þegar ég var á einhverju netvafri. Á mínum ungdómsárum ég las af miklum móð ævintýri Fimm fræknu og lifði mig inn í þau og elskaði Pétur Pan og ég tala nú ekki um Paddington þegar ég kynntist honum.
Þetta er greinin sem ég fann:
"Barnabækur eftir Enid Blyton, Fimm fræknu, eru komnar í ónáð hjá Evrópuþinginu. Sömuleiðis eru ótækar bækurnar um björninn Paddington og Pétur Pan. Evrópuþingið telur að þessar bækur ýti undir staðaímyndir um hlutverk kynjanna þar sem konur eru sýndar gæta bús og barna en karlarnir eru útvinnandi.
Daily Mail segir frá skýrslu þingnefndar Evrópuþingsins sem vill breyta uppeldisskilyrðum ungra íbúa Evrópusambandsríkjanna í þágu jafnréttis kynjanna.
Þýska útgáfan Welt spyr hvort Evrópusambandið hafi ekkert þarfara að gera en að agnúast út í barnabækur núna þegar stórborgir álfunnar loga í óeirðum vegna evru-kreppunnar. Spyr sá sem ekki veit."
Ég get bara talað fyrir mig það getur vel verið að það sé einhver falin skilaboð í þessum bókum sem eru ekki góð og þess vegna þyki mér svona gaman að strauja og elda, þetta er örugglega allt Enid Blyton að kenna og ég er alveg brjáluð út í hana ef ég hefði ekki lesið þessar bækur þá væri ég örugglega á fullu að gera við bíla eða smíða húsgögn þvílík sóun. Nei bara smá grín mér finnst þetta nú svolítið langt gengið að þessar bækur sem fjölmörg börn eru búin að skemmta sér yfir séu komnar í ónáð ég verð nú bara að segja það.
Comments