Það eru jafnmargar leiðir til....

Leiðirnar til að vaxa og dafna, eru jafn margar og allir íbúar jarðarinnar.
 En okkar eigin leið er sú eina sem ætti að skipta okkur máli.
-Evelyn Mandel
Þessi mynd heitir : la patisserie og er eftir  emmu block
Þetta er ég þegar ég fer til Parísar að skoða bakaríin.

 Öll erum við á einhverri leið að einhverju og áramótin eru góður tími til að skoða:
 Á hvaða leið er ég ?  Hvert langar mig að stefna ? Það er líka gott að skoða er ég mikið í því að ákveða fyrir fullorðið fólk sem stendur mér nærri á hvaða leið  þau eiga  að vera ? 

Ef ég er mikið í því að velja þær leiðir sem t.d. fullorðin börn mín eru á,  þarf ég nú bara einfaldlega að hætta því, einfaldlega sagði ég en það er oft ekkert einfalt að sleppa þeim og treysta því að allt verði í lagi þótt ég sé ekki með puttan í málinu.

Ég er nú þannig gerð að mér finnst ekki gott þegar annað fólk er að segja mér hvernig ég eigi að haga mér t.d. hvað ég eigi að borða, hvernig ég á að hreyfa mig, eða hvernig ég á að haga mér svona yfirleitt. Ég geri því ráð fyrir því að börnunum mínum finnist það ekki heldur eða hvað ?

Aftur á móti get ég alveg tekið leiðsögn um hvað mætti betur fara en það er bara ekki sama hvernig hún er fram borin, því að leiðsögn eða tilsögn ef ég óska eftir henni er allt annað en að það sé einhver að ráðskast með mig. Í gegnum tíðina hef ég mjög oft farið fjallabaks leið eða valið erfiðu leiðina en það er mín aðferð og ég hef lært heilmikið á þessu en oft er þessi leið miklu erfiðari núna er ég að reyna að breyta þessu og það er á listanum mínum fyrir nýja árið.


Þessi skemmtilega mynd er efir Loru Lamm,
 þetta er bara eins og ég þegar ég er í sundi svo flink :)  hin konan er ég þegar ég dressa mig upp eftir sundið :)




Listinn minn er ekki mjög langur :

1. Hætta að velja alltaf erfiðustu leiðina að settu marki

2. Halda áfram að æfa mig í að sleppa tökunum á börnunum mínum, án þess að hætta að vera í samskiptum við þau eða hafa áhuga á því sem þau eru að gera.

3. Halda áfram að stunda skriðsund og byrja aftur að ganga meira en á göngustígum.

4. Borða skynsamlega og njóta þess, ekki vera alltaf að borða með samviskubiti eða vera væla yfir kílóum.

5. Fara í bíó og á tónleika á árinu, fór ekki 1 x á síðasta ári í bíó og bara 1 x á tónleika núna í desember.

6. Fagna hverjum degi ársins með öllum þeim kostum og göllum sem hann hefur.

7. Vera þakklát fyrir það sem ég hef og vanda mig í samskiptum við þá sem á vegi mínum verða jafnt sem  og við fjölskyldu og vini.

8. Hafa gaman dansa, syngja, veiða og ferðast og gera alla þá skemmtilegu hluti sem mig hefur lengi langað að gera en ekki gefið mér tíma í það, samt ekki allt í einu.

9. Passa upp á heilsuna og streituna, sinna vinum mínum betur.

10. Gera eitthvað sem mig hefur lengi dreymt um er ekki alveg búin að ákveða það ennþá hvað það er.

Eins og sjá má þá verð ég svo upptekin í að hafa gaman á þessu nýja ári að ég má ekkert vera að því að vera með nefið ofan í annara manna koppum :) Verð bara í mínum eigin koppi og skemmti mér með góðu fólki, hvort sem það er, sambýlismaður, dætur eða vinkonur.
Hlakka svo til tralla la la.


Comments

Popular posts from this blog

Gúrka, gúrka, gúrka

Kindalund og dásamleg stund !!!!

Sveita og hjónabandssæla !!!!!