Æviskeiðin okkar.

Mannfólkið og ég þar á meðal fer í gegnum ótal breytingarskeið á leifsleiðinni og hvert og eitt þeirra tekur á en hefur sinn sjarma.


 Við fæðumst og erum börn sem þurfa umönnun það er kannski fyrsta skeiðið okkar, síðan förum við yfir á það næsta þar sem við byrjum að uppgöva heiminn í kringum okkur, byrjum í skóla og það er mikil breyting fyrir okkur öll hvort sem hún er ánægjuleg eða ekki.
Svo taka unglingsárin við og við erum aðreyna að brjótast til sjálfstæðis, næst verðum svo sjálfráða og þá hoppum við á milli að vera fullorðin og börn því að við erum ekki búin að ná fullum þroska en teljum okkur vita allt og geta allt:)
Síðan tekur framhaldsnámið við og svo stofnum við fjölskyldu og þá tekur við nýtt skeið í lífi okkar , sumir eignast börn og verða uppteknir af uppeldi þeirra og að reyna að sinna maka, félagslífi, vinum og áhugamálum, vinnu og þetta tekur mikið á og oft fattar maður það ekki fyrr en eftir á.

Svo fara börnin að heiman og þá tekur við nýtt æviskeið  og þá þurfum við að finna okkur upp á nýtt og það er nú til  greining sem heitir " Heilkenni tóms hreiðurs" því að þetta skeið fer misvel í fólk,  við eigum ekki öll gott með að sleppa börnunum og treysta þeim til að sjá um sig sjálf þótt þau séu fullfær um það.
Nú höfum við rúman tíma fyrir okkur og þurfum að nota hann vel ég er á þessu skeiði núna og það gengur misvel fyrir mig að fóta mig þar, á þessu skeiði koma oft barnabörnin og þá getum við notið þess að sinna þeim og dekra og skilað þeim svo bara aftur til foreldrana.


Ég keyrði í gegnum miðbæinn síðastliðið föstudagskvöld og það var mikið af fólki  á röltinu  og  inn um gluggana á veitingarhúsum sást fólk að borða og hlægja, það helltist yfir mig skrítin tilfinning og hugsun og þegar ég kom heim fór að velta þessu fyrir mér.



Það  rifjaðist  upp svipaðuð  tilfinning sem ég fékk þegar ég keyrði niður Laugarveginn þegar ég var 37 ára og var með tvíburadætur mínar 2 ára rellandi  aftur í bílnum þá sá ég ófríska konu á gangi og hugsaði með mér ég á aldrei eftir að verða ófrísk aftur nú er þeim kafla lokið og ég fylltist sorg, samt á ég 4 börn og hafði  ekki hugsað mér eiga fleiri og hafði alveg nóg að gera við að hugsa um börnin  sem ég var búin að eiga. 
En þarna áttaði ég mig á því að ég var að fara inn á nýtt skeið í lífi mínu þar sem barneignir væru ekki lengur valkostur og þess vegna tók þetta á mig.

Þessi tilfinning sem ég fann fyrir á föstudaginn var hugsunin  ég er kominn á þann aldur að ég fer aldrei aftur í bæinn að djamma er orðin allt of gömul í það, ég hef ekki farið í bæinn að djamma í mörg ár og hef ekki haft áhuga á því en þarna fannst eins og það væri tekið frá mér.
Ég er orðin gömul var hugsunin en mér líður samt ekki þannig það er alveg ótrúlegt hvaða hugsanir geta poppað upp í höfðinu á okkur og haft allskonar áhrif á okkur. ( sjálfvirkar hugsanir ) 



Ég er alveg viss um að ég er ekki ein um þessar hugrenningar um lífið og tilveruna og þessi æviskeið okkar, en þetta eru mínar hugrenningar og tilfinningar og ég er farin að bera virðingu fyrir þeim, og þótt ég sé ennþá oft misvitur þá hefur mér farið fram og ég er að læra að taka þessu nýja æviskeiði mínu fagnandi og ætla að horfa á það jákvæða við það.

Ég get alveg farið í bæinn á föstudagskvöldum ef ég vel það,  þótt ég fari ekki í stuttu pilsi, háum hælum og aðeins undir áhrifum eins og gerði þegar ég var yngri, nú fer ég til að fara út að borða góðan mat, fara í leikhús og auðvitað get ég enn kíkt á sætu strákana á hvaða aldri sem þeir eru ef mig langar til þess þrátt fyrir að sjónin sé farin að daprast ég sé það sem ég vil sjá :)

Ég er mun sjálfsöruggari heldur en ég var á mínum yngri árum og þori að segja mína skoðun og standa með henni hvar og hvenær sem er.

Ég klæði mig eftir mínum smekk núna en ekki annara það er frelsi og svona má lengi telja, þessu nýja skeiði fylgir allskonar frelsi sem var ekki í boði þegar ég var yngri.

Það er skemmtileg tilviljun að það eru 20 ár á milli hjá mér þar sem svona hugsun kemur upp og þá á ég von á því að hún poppi aftur upp hjá mér þegar ég verð 77 ára og hugsa þá kannski með mér ég er orðin of gömul til að dansa salsa eða eitthvað álíka gáfulegt.

En aldur er bara tala og ef ég fer vel með mig og reyni að nýta nýju tækifærin á þessu lífsskeiði þá verð ég ekki með neina eftirsjá þegar ég kemst á næsta æviskeið :)










Comments

Popular posts from this blog

Gúrka, gúrka, gúrka

Kindalund og dásamleg stund !!!!

Sveita og hjónabandssæla !!!!!