Hláturinn lengir lífið
Hláturinn lengir lífið stendur einhversstaðar og ég er alveg viss um að það er satt, fyrir mig skiptir öllu máli að geta hlegið með fólki og ég hef líka verið dugleg að hlægja að sjálfri mér án þess að gera lítið úr mér.
Ég var svo heppin að fara á Heilsuhælið í Hveragerði í byrjun árs og var þar í fjórar vikur til að efla heilsuna bæði líkamlega og andlega, þar hitti ég dásamlegt fólk sem var að efla sig eins og ég og kynntist sumum betur en öðrum eins og gengur.
Ég var mest með þremur konum þarna og við gátum hlegið svo mikið saman og stundum í gegnum tárin og þegar ég lít til baka þá veit ég að þetta átti stóran þátt í batanum sem ég fékk þarna.
Þessi mynd var tekin í garðinum í gær ég veit ekki hvað þetta tré heitir en það er svo fallegt.
Þessi mynd er af tré sem er orðið risa stórt og fallegt í garðinum og það heitir Heggur og það koma svo falleg blóm á það og þegar þau eru búin þá koma þessi ber.
Það er nú þannig að þegar okkur líður ekki vel þá höfum við varla orku í að hlægja en ef það tekst þá finnum við strax mun á okkur, vinkona mín sagði mér um daginn að við ættum að brosa a.m.k fimm x á dag og jafnvel þótt okkur liði ekki þannig, það sem þetta gerir fyrir okkur er að það fer eitthvað á stað sem veitir okkur vellíðan ég ákvað að prófa þetta og í fyrsta skiptið sem ég gerði það var ég úti í vatni að veiða og hafði ekki orðið vör í langan tíma og viti menn ég stóð þarna og brosti með sjálfri mér og eftir stutta stund þá var ég farin að syngja. Ég lærði það í Mindfullness að ef við brosum á meðan við erum að gera æfingar þá tengir heilinn brosið bara við eitthvað gott og þá fer vellíðan af stað í líkamanum sem við finnum vel fyrir.
Mér finnst líka gaman að hlæja að vitleysunni sem ég lendi í og hef oft hugsað hver lendir í svona nema ég, en auðvitað er fólk um allan bæ að lenda í allskonar uppákomum en það er spurning hvernig tökum við á því, getum við séð það spaugilega við það eða verðum við reið og pirruð, það er ekki hjálplegt.
Um daginn fór ég af stað í líkamsræktina uppúr hálf sjö og var brosandi og ánægð með mig að hafa nú drifið mig á stað og hugsaði með mér já nú fer ég bara 3x í þessari viku þetta virkar svo vel bara að mæta og vera ánægð með mig. Ég byrja allar æfingar á upphitun og hún fer fram á göngubretti og svo hjóli, ég spígsporaði að brettinu brosandi og upprétt og nú skildi taka þetta föstum tökum, sitt hvoru megin við mig var fólk að ganga á brettum og ég steig tíguleg á brettið mitt setti það í gang og svo vissi ég ekki fyrr en ég lá úti á gólfi og var ekki alveg að átta mig á hvað hafði gerst, en þá er bara að standa í lappirnar og reyna aftur og af því að ég var svo ringluð þá skreið ég upp á brettið og ætlaði bara að reisa mig við á því en það vildi ekki betur til en ég hentist aftur út á gólf og lá þar eins og hrúgald og mest var ég nú hissa að það stoppaði enginn og athugaði með mig.
Hnén á mér voru ansi aum en ég var komin á staðinn og æfingarnar skildi ég gera sem og ég gerði og lét svo vita af þessu í afgreiðslunni og svo þegar leið á daginn þá bólgnaði hnéð á mér svo mikið að ég gat ekki farið í ræktina strax aftur eins og ég hafði ætlað mér, en eftir á þegar ég sagði frá þessu fannst mér þetta svo ótrúlega fyndið og hló mikið og sá fyrir mér þegar ég fór eins og eldibrandur út á gólf 2 x og auðvitað hefði ég getað slasað mig meira en það gerðist ekki og það skiptir máli. Nú á ég enn eina söguna til að hlægja af og er hætt að fara á göngubretti og held mig við hjólið og göngur úti við.
Í dag ætla ég að brosa a.m.k 5 sinnum og sjá hvaða áhrif það hefur á mig en ég tók ákvörðun í sundi í morgun að ég ætla að gera þetta að góðum degi og taka á móti þeim ævintýrum sem verða á vegi mínum í dag.
Comments