þetta átti að verða lasagna :)
Um daginn ætlaði ég að gera lasagna og áttaði mig svo á því þegar ég var byrjuð að það voru ekki til lasagnaplötur og þá datt mér í hug að gera bara platsagna og það varð bara ljómandi gott.
400 gr hakk
3 gulrætur
2 hvítlauksrif
1/2 stór laukur
4 soðnar kartöflur
2 tómatar
salt, pipar
tómatsósa sem ég bjó til ( hægt að nota pastasósu úr krukku)
1 tsk sojasósa
Brúnaði hakk á pönnu og bætti pressuðum hvítlauk, söxuðum lauk, niðursneiddum gulrótum og kryddi út í og lét þetta malla aðeins, þá bætti ég 2 tómötum og soðnum kartöflum sem ég var búin að stappa saman við, að síðustu setti ég tómatsósuna og 1 tsk af soja sósu út í, leyfði þessu að hitna vel í gegn.
Setti helminginn í eldfast mót og kotasælu ofan á og niðursneiddan tómat og klippti basiliku blöð ofan á og setti síðan restina af hakkinu ofan á og rifinn ost yrir allt. Þetta reyndist bara hinn besti réttur og ég á örugglega eftir að prófa mig meira áfram með svona platsagna.
Þessa bók heimilfræði notuðu dætur mínar í heimilisfræði í grunnskóla og það er gaman að skoða hana og í henni leynast matarperlur og ég hef fengið hugmyndir úr henni bæði af mat og bakstri og ég er viss um að víða leynast þessar bækur.
Þær þurfa ekki endilega að vera fínar eða dýrar matreiðslubækurnar sem við fáum hugmyndir úr, mér finnst samt alltaf gaman að lesa og skoða fallegar matreiðslubækur og hætti því örugglega aldrei.
Það er líka svo gaman að þegar við erum að elda eitthvað og það fer ekki alveg eins og það átti að vera þá verða oft til uppáhalds réttir hjá okkur.
þannig að það eru ekki gerð mistök í eldhúsinu heldur uppgötvanir !!!
Comments