Pönnukökur, súkkulaði og sól þurrkuð lopapeysa!
Ég bakaði pönnukökur í dag með kaffinu eins og svo oft áður á sunnudögum þær eru alltaf jafn góðar í dag settum við banana, súkkulaði, íslensk jarðaber og rjóma á þær og það er alveg ótrúlega gott.
Það eru komin blóm á jarðaberja plönturnar mínar og þau verða að berjum en það er eitthvað í að berin verði tilbúin svo ég keypti bara íslensk jarðaber að mínu mati eru þau miklu betri en þau útlendu.
Ég notaði nutella súkkulaði í dag en ég hef líka brætt súkkulaði til að setja á pönnukökur það er líka mjög gott.
Ég nota aldrei uppskrift af pönnukökum en ætla að láta eina gamla og góða fylgja hérna með:
250 gr. hveiti
1/2 tsk lyftiduft
25 gr. smjör ( ég nota olíu)
1/2 ltr mjólk
salt, sykur, ( ég set yfirleitt kardimommu dropa í mínar eða vanillu dropa )
2 egg,
Í hveitið er blandað saltinu, sykrinum og lyftiduftinu. 25 gr brætt smjör vætt með helmingi mjólkurinnar. Þá eru eggin hrærð saman við og síðast það, sem eftir er að mjólkinni. Bakað á heitri pönnuköku pönnu
Má til með að setja þetta inn líka fannst þetta svo skemmtilegt langamma dætra minna gaf mér þessa bók og það er fullt af fínum uppskriftum í henni.
Það kom að því að ég nennti að þvo peysuna sem ég var að klára og það var algjört æði að geta bara þurrkað hana út í sólinni í dag. Nú þarf ég að drífa mig að setja í hana rennilás en hún Alma mín vill endilega fá að eiga þessa peysu og ég er búin að prjóna húfu í stíl og hún ætlar að skarta þessu á Rauðasandi um næstu helgi og ætli það veiti nokkuð að því að vera vel klæddur í útilegunni.
Ég er búin að prjóna húfu á hana Helgu mína hún er vínrauð og það er spurning hvort hún vilji peysu í stíl við sína húfu en ég næ nú ekki að prjóna hana fyrir Rauðasand þótt ég sé nú smá biluð í prjónaskapnum :)
Ég vona að allir eigi góða viku framundan hvort sem þeir eru í sumarfríi, að vinna eða gera eitthvað annað :)
Comments