Það er betra að baka skinkuhorn heldur en að hafa horn í síðu einhvers !

Þessi bók Ostalyst var gefin út af osta- og smjörsölunni sf 1988 og er því að verða antík ;)  Ég hef notað hana reglulega, það er svo skrítið hvernig ég tek ástfóstri við sumar matreiðslubækur og læt svo aðrar sem ég á alveg í friði ekki veit ég hvað veldur. En uppskriftin af skinkuostahornunum sem ég bakaði er í henni og ég læt hana fylgja hér:


Deig:
100 gr smjör
1/2 líter mjólk
1 pakki þurrger
60 gr sykur
1/2 tsk salt
900 gr hveiti

Hitið mjólk og smjör við vægan hita, hellið þessu í skál og sáldrið gerinu yfir og hrærið það vel saman við vökvann. Bætið salti og sykri út í ásamt hluta af hveitinu ( ég tók frá 1/3 ).

Þessu er hrært saman í skálinni með sleif og þegar deigið loðir vel saman breiðið þá klút yfir það og setið það á hlýjan stað og látið það lyfta sér í 30 mín.

Restini af hveitinu bætt við smátt og smátt,  ekki víst að þið þurfið að nota það allt ég gerði það ekki.
 Hvoldi deiginu á borð og hnoðaði það passa bara að hnoða ekki of mikið þá verða hornin seig.

Síðan skipti ég deiginu í 5 hluta hver um sig var tæplega 300 gr.


Síðan er hver biti flattur út í kringlótta köku og hún skorin í 8 geira



Því næst er fyllingin sett á og ég var að þessu sinni með skinkubita og paprikusmurost en ég hef prófað allar tegundir af ostum og stundum sett pepparóní bita inn í hornin um að gera að prófa sig áfram. 
Byrja að rúlla þeim upp frá breiðari endanum

halda svo áfram að rúlla 



Þangað til þau líta svona út og það er gaman að hafa hornin falleg í laginu það skiptir líka máli setjið þau afur á hlýjan stað undir klút og látið hefast í 30-40 mín. ( ég hafði þau í 40 )


Sett á bökunar plötu með smjörpappír og þau eru pensluð með þeyttu eggi með smá mjólk út í og svo stráði ég birkifræjum ofan á það má líka setja salt ef einhver vill eða annað korn.

Hornin eru bústin og mjúk og alveg ótrúlega mjúk og góð og sóma sér vel hvort heldur er í útileguna eða veisluna,

Úr þessari uppskrift fékk ég 40 bústin og falleg horn en það er líka vinsælt í veislum að gera lítil horn rétt munnbita og þá fær maður 100 og eitthvað horn úr þessari uppskrift sem stendur alltaf fyrir sínu.


Að hafa horn í síðu einhves þýðir að ég er ekki alveg sátt við manneskjuna og ég er nú svo heppin að það er ekki fólk í kringum mig sem ég þarf að vera að hornast við.

En það er samt alltaf svo að okkur líkar misvel við fólk og því við okkur og það er í góðu lági.

Comments

Popular posts from this blog

Gúrka, gúrka, gúrka

Kindalund og dásamleg stund !!!!

Sveita og hjónabandssæla !!!!!