Fóturinn er meistaraverk

Fóturinn er meistaraverk, sem varðveita skal frá vöggu til dauða stendur á heimasíðu fótaaðgerðartstofu hér í borg, og mikið er ég sammála þeim. Þegar ég hugsa um hvernig ég hef komið fram við fæturnar mínar í gegnum tíðina þá skil ég ekkert í því hvað þeir eru þó brattir ennþá, þótt ég sé nú orðin  fótfúnari núna í seinni tíð, sem ég var nú ekki á mínum gullaldarárum :)

 En ég fann nú ráð við því skal ég segja ykkur : í síðustu viku fór ég full af orku og vinnugleði hérna út í garð með viðarvörn í dós og pensil í hönd  nú átti sko að taka á því og viðarverja hægri vinstri, sem og ég gerði bar á grindverkið á pallinum og byrjaði utan frá og var mjög fagleg við þetta. Þegar leið á varð ég bæði þyrst og svöng og æddi út í Bónus í rósóttu gúmmí-skónum, með eiturgrænt buff á höfðinu og í mínum sérstöku garðbuxum það var mikill sláttur á frúnni. Ég fékk mér svo kaffi og með því eins og sannur vinnumaður og var snögg að því og skundaði út í garð aftur til að halda verkinu áfram og heimasætan fylgdi mér til að hjálpa til.

Það vildi ekki betur til en það að dósin sem var nærri því full ( keypti hana á leiðinni heim úr vinnu á 4990 kr.) þurfti endilega að þvælast fyrir mér þegar ég steig tígurleg til baka frá grindverkinu og ég vissi ekki fyrr en ég stóð í fötunni nærri því upp á hné ( er nú ekki há til hnésins) og dóttirin hrópaði upp yfir sig því henni brá svo við hljóðin sem frá mér komu " mamma hvað gerðist " ég þessi hagsýna kona varð alveg miður mín yfir því að hafa hellt olíunni niður bæði vegna þess að hún er dýr og líka út því að þetta fór ofan í jarðveginn.

Ég tók fótinn upp úr dósinni og var mjög virðuleg í fasi þegar ég gerði það og hélt svo áfram að fúaverja ákveðin í að klára þetta litla sem eftir var í fötunni og þegar ég steig til jarðar heyrðist " skvass skvass " og dóttirin líka með hagsýnisgenið sagði " mamma getur þú ekki farið úr skónum og hellt því sem er í honum í fötuna"

Ég við vorum búnar að klára úr fötunni fór ég úr skóm og sokkum og var svona líka svakalega brún og falleg á fætinum og það gekk hálf illa að ná olíunni af honum, þannig að nú er grindverkið, fótuinn, og gúmmískórnir vel varið fyrir rigningarnar í sumar:)

 Þetta eru skórnir sem frúin var í á sínum gullaldartímunum ( nú er ég á seinni gullöld )
 Þeir svörtu en sumir þeirra eru enn í notkun og þeir elstu eru 17-18 ára ég get ekki fengið mig í að henda þeimenda alveg óslitnir.
Þessa fékk ég í afmælisgjöf í fyrrasumar frá henni Ölmu minni og ég gat ekki notað þá því að ég var öklabrotin þannig að ég get vígt þá í sumar. ( Kron Kron) 

þetta eru stígvélin sem frúin arkaði á um allan bæ á sínum tíma og fannst það lítið mál, en fæturnir voru nú ekki alltaf sammála því.


Þessi voru notuð við hátíðleg tækifæri og þótt ég kæmist ofan í þau í dag ( sem ég geri ekki) þá gæti ég ekki einu sinni komist út úr húsi á þeim hvað þá annað því að hælarnir eru svo háir.


Þessir eru nú mikið notaðir þeir voru keyptir í Búdapest fyrir einhverjum árum síðan og voru notaðir þegar frúin var í bleiku dressunum sínum :)
Þetta eru einu skórnir með viti og það hefur mikið verið þrammað um fjöll og firndindi í gegnum tíðina á svona skóm það skiptir miklu máli í lengri gönguferðum að vera vel skóaður, ég held líka mikið upp á vöðluskóna mína sem ég nota vonandi í veiðinni í sumar.


Þetta eru skór sem vesalings fæturnir mínir mundu skríkja af kæti í og kannski fer bara næsta verslunarferð í það að leita þá uppi.

Á mínum ungdóms árum þurfti ég að vera í fótaæfingum og var nú ekki hrifin af því skal ég segja ykkur, þar voru saman komnir þeir sem voru innskeifir, með ilsig og allskonar fótamein, hvernig skildi hafa ræst úr þessu fólki? Það tiplar örugglega léttfætt hér um götur borgarinnar í dag.

Inn á doktor.is eru góðar greinar um fætur og hirðingu þeirra og ég hvet ykkur til að skoða það,
og muna það eru fæturnir sem halda okkur uppi, sjá til þess að við höldum jafnvægi og bera okkur á milli staða, hættum að taka þeim sem sjálfsögðum hlut og gefum okkur tíma til að hlúa vel að þeim þessum elskum....



Comments

Popular posts from this blog

Gúrka, gúrka, gúrka

Kindalund og dásamleg stund !!!!

Sveita og hjónabandssæla !!!!!