Súkkulaði og sunnudagur !!!
Sunnudagur til sælu og súkkulaðis hvað gæti verið betra svona daginn eftir kosningar, ég var nú svo ómenningarleg að sofna bara um ellefuleitið í gærkvöldi og svaf svona ljómandi vel án þess að vita hvaða niðurstöður væru í kosningunum og það er nú einu sinni svo að ég fæ bara eitt atkvæði og get ráðið hvað ég geri við það en svo ræð ég engu um öll hin. Þess vegna var ég svona róleg og treysti því að allt færi vel, ætla svo ekki nánar út í þá sálma hér.
Af því að ég sofnaði svona snemma í gær þá vaknaði ég snemma í morgun úthvíld og ákvað að baka súkkulaðiköku og ætla að láta uppskriftina hérna inn en hún heitir skúffukaka Ágústu frænku og ég er búin að baka hana ansi oft í gegnum tíðina annað hvort sem tertu eða skúffuköku og hún er alltaf jafn góð.
Kakan:
125 gr. smjörlíki eða smjör ( stór 185 gr.)
300 gr. sykur ( stór 420 gr.)
250 gr. hveiti ( stór 375 gr.)
2 tsk. lyftiduft ( stór 3 tsk.)
1/2 tsk matarsódi ( stór 1 tsk.)
1 tsk. salt ( stór 1 tsk.)
4 msk. kakó ( stór 5 msk.)
2 1/2 dl. mjólk (stór 3-4 dl.) deigið á ekki að vera þykkt
2 egg ( stór 3 egg)
Ef þið notið minni uppskriftina þá eru þetta 2 tertubotnar, en sú stærri er skúffukaka eða 4 tertubotnar
Þetta er allt hrært saman í einni skál í 3 mínútur og sett í smurt form sem búið er að strá hveiti innan í líka svo að kakan festist ekki við botninn.
Bakað í 180 gr. þangað til til botninn er farinn að losna frá mótinu ( hef alltaf gleymt að taka tímann)
Í kremið notaði ég 4 dl. flórsykur
3 tsk kakóduft
175 gr. smjör
1 tsk vanilludropa
3 matskeiðar sterkt kaffi.
Ég setti rifsberjasultu á botninn og lét hana aðeins taka sig og síðan setti ég kremið yfir.
Svo var seinni botninn settur ofan á og restin af kreminu sett þar ofan á.
ég stráði kókos flögum ofan á en það er líka gott að setja jarðaber en ég átti þau ekki.
Það er þægilegt að baka stóra uppskrift og setja á eina köku og eiga aðra í frysti.
Við gæddum okkur svo á þessu í kaffitímanum með þeittum rjóma alveg ómissandi með.
Það er um að gera að prófa sig áfram t.d nota olíu í staðin fyrir smjör en þetta er einföld og góð uppskrift sem svíkur mann aldrei og það er vel hægt að setja hana í sparibúning með því að setja brætt suðusúkkulaði og jarðaber eða hindber á hana.
Restin af deginum fór í prjónaskap og tiltektir og það byrjar ný vinnu vika á morgun og hún er bara 4 dagar og það er bara notarlegt að vita það ég vona að þið eigið öll góða viku framundan.
Comments