krækiber....kökur og saft
Ég er enn að nota það sem til er í frysti frá því í haust og meðal annars á ég krækiber og smávegis af bláberjum, en ég frysti slatta í litlum meðfærilegum pokum og hef verið að nota þau í t.d búst.
En ég ákvað að baka eitthvað úr þeim í dag af því að það er sunnudagur og ég byrjaði á því að gera smákökur og set uppskriftina hérna.
1 1/4 bolli hveiti
1 1/2 bolli haframjöl
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
3/4 bolli smjör
3/4 bolli púðursykur
1 tsk vanilludropar
2 egg
3/4 bolli ber
3/4 bolli hvítt súkkulaði
3/4 bolli möndlur / eða kókosflögur ( ég notaði þær)
Hveiti, haframjöl, lyftiduft og salt sett í skál og blandað vel saman, síðan er smjörið og púðursykur hrært þangað til það er ljós og létt og eggjunum bætt út í einu í senn og að síðustu vanilludropunum bætt í.
Hveiti blandan sett út í eggja, smjör og sykurblönduna og það hrært vel saman og síðan setti ég ber, súkkulaði og kókosflögurnar út í og þegar ég var búin að því fannst mér blandan vera svolítið þurr svo ég bætti 1 dl af mjólk út í.
Hnoaði þetta varlega saman og tók eina teskeið af deigi og gerði kúlu úr því og setti á bökunarplötu með smjörpappír og síðan ýtti ég með gaffli ofan á kúluna til að hún yrði flatari. Bakaði þetta í 220 gr. heitum ofni í 18-20 mín eða þar til þær voru orðnar ljósbrúnar.
BERJALENGJA/EPLALENGJA
Jæja úr því að ofninn var orðinn heitur ákvað ég bara að halda áfram að baka og næst gerði ég Berjalengju og uppskriftin að henni er að finna í gamalli bók sem ég á en hún heitir Hússtjórnarbókin og ég notaði hana í heimilisfræði fyrir ..........árum eða þegar ég var í gaggó :)
Þessi uppskrift í bókinni heitir Eplalengja en ég breytti henni aðeins.
Hérna er uppskriftin:
250 gr hveiti
3 tsk lyftiduft
75 gr smjör/ eða smjörlíki
1 tsk kardimommudropar
35 gr sykur
1 egg
1/2 dl mjólk
kókosflögur
Þetta var allt sett í eina skál og svo hnoðað saman á borði.
Ég ákvað að setja krækiber og rifið marsipan sem fyllingu í lengjuna.
Ég flatti deigið út með kökukefli og hafði það lengra í annan endann eins og ég væri að gera brauð og svo þegar ég var búin að setja fyllinguna í þá setti ég það saman og þrýsti börmunum vel saman og svo penslaði ég lengjuna með eggi og mjólk sem ég sló saman og það ofan á setti ég kókosflögur sem ég var búin að rista aðeins og þegar ég var búin að setja þær þá bar ég aftur eggjablönduna á.
Þetta er bakað í 30 mín við 200 c. hita.
Svona leit lengjan út áður en hún fór í ofninn en það má líka flysja 2-3 epli og skera þau í þunna báta og setja þá inn í lengjuna og setja t.d. kanilsykur ofan á hana.
Þetta er það sem ég gerði með kaffinu í dag :)
BERJASAFT
Það er líka ennþá til krækiberjasaft frá því í haust og ég tók eina flösku inn og það er gott að blanda saftina með vatni og klökum, Það er mjög hollt og gott að fá sér eitt staup á morgnana og ég er að hugsa um að gera það næstu morgna og vita hvort ég verði ekki ótrúlega hress :) En ég hef gert þetta af og til í vetur en ekki eins og oft og ég hefði viljað. Það er líka hægt að nota saftina til að gera berjagraut og hafa tvíbökur með honum kannski ég geri það bara fljótlega eða næst þegar ég gleymi að hafa eitthvað til í matinn :)
Svo byrja ég nýja vinnuviku berjablá um munninn eins og ég hafi verið að koma úr berjamó er það ekki bara yndislegt.
Comments