Lífsgleði og skonsur hvað er það?





Ég velti því fyrir mér í morgunsárið hvað er lífsgleði  er það eitthvað sem  ég get keypt út í búð eða notað sem álegg á skonsu ?

Þarf ég að vinna fyrir lífsgleðinni eða kemur hún bara af sjálfum sér?


Þetta eru erfiðar spurningar að svara en ég veit fyrir víst að ég get ekki farið í búðina og keypt mér gleði, en mér finnst gaman að fara í búð og kaupa eitthvað sem gleður aðra þegar ég er lífsglöð.

Ef ég er að kaupa eitthvað til að fylla upp í tómarúm sem er innra með mér þá gengur það ekki, dauðir hlutir geta aldrei komið í staðin fyrir lífsgleði eða fólk.
Það koma tímar í lífi okkar þar sem við erum örlítið döpur eða jafnvel sorgmædd af misjöfnum ástæðum  það er gangur lífsins og það fer eftir því hvað það er sem við erum að ganga í gegnum hvað það tekur langan tíma að komast í gegnum það eða að læra að lifa með því.

Það er ekki hægt að flýta því að fara í gegnum sorg eða depurð  en við getum gert ýmislegt til að hjálpa okkur í gegnum hana, og leyft öðru fólki að hjálpa okkur við það. Ekki slá á útréttar hjálparhendur, það er ómetanlegt að eiga góða fjölskyldu og vini á erfiðum tímum og líka á gleðistundunum í lífi okkar.

Ég sjálf hef verið döpur undanfarið og hef verið að leita að lífsgleðinni sem ég hafði og verið að skoða það hvernig ég get náð henni til baka og það hefur gengið frekar hægt, en ég er samt búin að átta mig á  hvað ég þarf að gera til þess og mér tókst það með góðri hjálp.

Ég trúi því staðfastlega að ég eigi eftir að verða aftur þessi lífsglaða kona sem ég var fyrir nokkrum mánuðum síðan og ætla að leggja mig alla fram við að finna hana aftur.

Ég er að fara út að ganga  flesta daga því að það gerir mér gott, ég er líka byrjuð að prjóna aftur og er alltaf eitthvað að bralla í eldhúsinu mínu, aðeins byrjuð að setja niður fræ sem vonandi spíra og verða fallegar plöntur í sumar. Það gefur mér mikla gleði að bralla og malla í eldhúsinu mínu.

Ég fór og hitti eina af mínum fallegu dætrum í hádeginu í dag og það gladdi mitt hjarta að eiga með henni gæðastund yfir susí ( hún bauð mér ) oft þarf nú ekki mikið til að gleðja mitt hjarta.

Við mannfólkið erum jafn misjöfn eins og við erum mörg og þess vegna öll einstök.  Það sama hentar okkur ekki öllum og það er um að gera að finna út hvað það er sem getur viðhaldið lífsgleðinni hjá okkur hverju fyrir sig.

Ég ætla t.d. að fara í það að baka skonsur því að ég eldaði kjötsúpu í gærkvöldi og ætla að hita hana upp og hafa skonsur með henni.

Ég ætla að láta uppskriftina af þeim fylgja hérna en hún er gömul og góð.

SKONSUR.

2 bollar hveiti 
2 tsk sykur
2 egg
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1 1/2 bolli mjólk

Hveiti, lyftiduft, sykur og matarsódi sett í skál, gott að taka smá mjólk og setja eggin út í hana og slá því saman,eggjablöndunni hellt út í smátt og smátt og hrært og síðan restinni af mjólkinni.

Ég hræri þetta alltaf í höndunum  því að annars verða þær seigar, ein ausa sett á miðlungs heita pönnu og þegar þær eru aðeins farnar að þorna þá sný ég þeim við.

Ég baka þær á pönnuköku pönnu  muna bara að hafa ekki of hán hita á pönnunni  þá brenna þær, það tekur smá tíma að baka hverja köku gott að æfa sig í þolinmæði á meðan þær eru vel þess virði að bíða eftir þeim.

Skonsur eru góðar volgar með smjöri og osti og í gamla daga gerði ég stundum skonsuköku
þá var sett salat og álegg að eigin vali ofan á köku og önnur sett ofan á og það var gott að hafa hana í fjórum lögum. Þessi uppskrift dugir í 7 skonsur.
Þær  eru líka góðar með reyktum silung og laxi, ég hef notað spelt bæði gróft og fínt í þær og það er líka allt í lagi að sleppa sykrinum en mér finnst þær betri þótt það sé bara ein tsk. af sykri í þeim ég hef einu sinni bakað þær með heilhveiti til helminga með hveitinu og það var mjög gott.
Það er bara skemmtilegt að reyna sig við eitthvað nýtt sem er samt eldgamalt eins og þessi uppskrift.



Ég tek allar myndirnar sem eru hérna á síðunni en ég fann þessa fallegu mynd á netinu og læt hana fylgja með og bendi á að það eru fallegar páskaskreytinar á síðunni hjá Mörtu Stuarth en það er tengill á síðuna hennar á minni síðu. Verði ykkur að góðu og lífsgleði njótið þið eigið það skilið :)


Comments

Popular posts from this blog

Gúrka, gúrka, gúrka

Kindalund og dásamleg stund !!!!

Sveita og hjónabandssæla !!!!!