Að vera eða vera ekki !!!

 Ég fékk þessa fallegu túlipana frá góðri vinkonu minni þegar hún kom í heimsókn í fyrradag.
Hún vildi með þeim óska mér alls hins besta þegar ég mæti í vinnu 1.mars.

Ég er búin að vera frá vinnu í fimm mánuði vegna veikinda og er að byrja hálfan daginn á föstudag og það eru blendnar tilfinningar sem fylgja því, það er líka búið að gera breytingar á starfinu mínu á meðan ég var frá og það verður áskorun að takast á við það líka, en ég veit að ég á gott fólk að á vinnustaðnum mínum og ég fer full af jákvæðni og tilhlökkun til baka og vonandi tilbúin til að takast á við ný og spennandi verkefni.

Vinnan  hefur gefið mér svo mikið í gegnum tíðina og hefur verið mjög stór partur af mínu lífi, og þegar ég þurfti að fara í veikindarfrí þá fann ég fyrir mikilli skömm, ég var ekki fótbrotin eða með líkamleg mein það sást ekki utan á mér að eitthvað væri að. Það tók mig þrjá mánuði að komast yfir skömmina og að sætta mig við það að vera veik, ég held að þá fyrst hafi mér byrjað að batna.
Að viðurkenna vanmátt sinn er styrkleika merki en ekki aumingjaskapur.

 Ég hef haldið mig mikið  heima og eins og þessi góða vinkona mín sagði við mig þegar hún kom í heimsókn" þú þurftir á því að halda að draga þig í hlé og safna kröftum" Ég held að það sé alveg rétt hjá henni.
En við verðum  að passa okkur að draga okkur ekki alveg inn í okkar eigin heim því að það er líka erfitt að fara út fyrir þægindaramman sinn aftur, það þarf að vera millivegur í þessu eins og öðru.

Þegar ég lít til baka og skoða hvað gerðist í mínu tilfelli þá sé ég að þetta á sér langan aðdraganda,
í fyrra vetur byrjaði ég að vera mjög slöpp og var alveg hætt að hreyfa mig og hafði ekki orku nema til að komast í vinnu og heim og svo lagðist ég bara í sófann og vildi helst ekki standa upp úr honum fyrr en ég fór inn í rúm að sofa.

Þetta gekk svona fram á vor en ég fór í veiðiferð um Hvítasunnuna og snéri mig illa á fæti og lét ekki athuga það fyrr en ég var búin að vera svona í rúma viku, þá fór ég til læknis og hún sendi mig í myndaöku og það kom í ljós að ég var öklabrotin og með slitið liðband og hún spurði mig hvort ég hafi ekki verið með mikla verki, en þá fattaði ég að ég var alltaf með einhverja verki og mig munaði svo lítið um þessa og það er alls ekki eðlilegt.

 Ég sagði þessum lækni frá því hversu slöpp ég væri alltaf og þetta væri ekki líkt mér " það hlýtur að vera eitthvað að mér" hún sendi mig í blóðprufu og þá kom í ljós að ég er með latan skjaldkyrtil og það hefur mikil áhrif á heilsuna og andlega líðan.
.
Það var mikið álag á mér bæði heima og í vinnunni en ég var ekkert að taka það með í reikninginn hélt bara áfram að hlaupa hraðar og safna streitu en svo kom sumarið og það var ljúfur tími við fórum mikið í veiðiferðir og höfðum það gott og mér fannst ég vera alveg endurnærð þegar ég mætti aftur í vinnu eftir gott sumarfrí.
En það var víst ekki alveg þannig því að í byrjun október  2012 brotnaði ég alveg saman og fór heim í veikindarleifi um óákveðinn tíma eins og það var orðað.

Mér leið eins og allt mitt líf væri hrunið og að ég væri hvorki heil né hálf manneskja ég fékk viðtöl í vinnunni minni og það hjálpaði mér upp að vissu marki en ekki nóg og svo kom kvíðinn sem læðist að manni eins og þoka og hellist allt í einu yfir mig hvar sem ég var stödd það er vægast sagt ömurlegt, ég treysti mér ekki til að fara í búðir fór lítið á mannamót, en er svo heppin að vera í félasskap sem heitir POWERtalk og er í deild hérna í mosó með yndislegum konum og ég fór á fundinda með þeim og það hljálpaði, en mér fannst ég hvorki vera eða vera ekki og fannst oftast að ég stæði fyrir utan og horfði inn og það er óþægileg tilfinning.

Ég er líka í bókaklúbb með yndislegu fólki sem er á andlegu leiðinni eins og ég og ég þau hitti ég líka og það hjálpaði mér mikið því að þau tóku mér nákvæmlega eins og ég er.

Systir mín og mágur voru svo yndisleg að bjóða mér með sér á streituviku á Heislustofnun í Hveragerði í nóvember,  það hjálpaði mér að sjá hversu illa ég var stödd líkamlega og andlega og það góða fólk sem þar vinnur sagði við mig að ég hefði mjög gott af því að koma aftur til þeirra og vera í fjórar vikur.

Ég hélt nú samt þegar ég fór þaðan að nú væri þetta komið og ég gæti farið að vinna 1. des ( alltaf að flýta sér) en læknirinn minn var ekki á sama máli og ég hafði á þessum tíma lært að treysta þeim góða manni sem hafði haldið svo vel utan um mig, og ákvað því  að hlýða honum.

Það var sótt  um í Hveragerði fyrir mig eftir að ég hafði átt mjög slæman tíma í desember mikill kvíði og alltaf grátandi og fannst mjög erfitt að leggja þetta allt á fólkið mitt.
Mér var boðið að koma 10. janúar í Hveró og ég fór þangað með von um betri líðan og það er svo frábært starfsfólk þarna og ég kynntist frábæru fólki sem var þarna með mér, þetta var ekki alltaf auðvelt, en ég gat hlegi mikið inn á milli þess sem ég grét og það var mjög heilandi. Ég hef verið svo heppin að vera í sambandi við Virk starfsendurhæfingu og það góða fólk sem þar er ætlar að styðja mig áfram. Ég kem til með að hitta áfram sálfræðing og vera í líkamlegri virkni og í Árverkninni minni, úff þetta hljómar eins og full vinna :)

Ég samdi smá brag þarna áður en ég fór heim og ætla að láta hann fylgja með hérna:

 Ég brotin var er mig að dyrum hér bar,
og yfir mér fann ég skugga
en hér voru allir mig tilbúnir að hugga.

Ég græt um alla ganga, og heim mig fer að langa
þá stappað er í mig stálinu og sagt mundu eftir bálinu
sem innra með þér býr.

Slökun nudd og svolítið snudd, hverra mann ertu góða
hér höfum við margt að bjóða.
Maturinn marglitur er og loft í mér hvert sem ég fer,
og félgaslífið blómlegt er eins og vera ber
hælið af öðrum stöðum ber, og út úr minni skel ég fer

Fjórar vikur eru fljótar að líða og þess skammt að bíða
að ég heim á leið haldi,
og þá verður gatan greið að halda áfram heilsuna að efla,
enda er um lífið að tefla.

Mitt hjarta fullt af þakklæti er og þótt ég engan vilji lasta
þá hún Gréta mín af öðrum ber og í mínu hjarta er
er ég héðan fer.

Þið öll hafið mér mikið gefið og minningar ég með mér tek
ég vona að ég hafi ekki verið á tíma ykkar frek,
það þarf mikið þrek héðan sig að rífa
og þess örugglega ekki langt að bíða, að ég aftur sæki hælið heim.

Og þótt ég fari út í heim, þá þá tek ég ykkur með í mínu hjarta
og sé í fyrsta skiptið í langan tíma , framtíð bjarta.

Til hvers er ég að skrifa um þetta:

Það er til þess að minna mig á að taka ábyrgð á eigin heilsu því að hún fæst ekki keypt út í búð,
og vonandi getur þetta hjálpað einhverjum.

Og muna að þegar við verðum veik hvort sem það er andlegt eða líkamlegt þá þurfum við hjálp og það er engin skömm að þiggja hana eins og ég hélt í byrjun.

 Muna að þótt mér hafi liðið eins og allt væri ónýtt sem ég væri búin að gera í mínum málum, þá er það ekki þannig ég er að koma til baka og þessi lífsreynsla verður enn eitt þroskaprófið sem ég er búin að taka og stóðst, og það gerir mig hæfari til að skilja aðra sem eru að ganga í gegnum veikindi.

Það getur líka verið erfitt að vera heima og vera úti að ganga, synda samkvæmt læknisráði og jafnvel grennast og líta mjög vel út og fólk hefur orð á því og maður skammast sín enn meira fyrir að vera ekki að vinna.
Munum bara:  Aðgát skal höfð í nærveru sálar, það er góð regla við vitum aldrei hvernig fólki líður það sést ekki alltaf utan á manni.:)

Comments

Popular posts from this blog

Gúrka, gúrka, gúrka

Sveita og hjónabandssæla !!!!!

Kindalund og dásamleg stund !!!!